LOPPURÁÐ

LOPPURÁÐ

Skurðir á loppum eru algeng meiðsli hjá aktívum hundum. 

Hér deilir Kolbrún Arna dýrahjúkrunarfræðingur og hundasjúkraþjálfari góðum ráðum til þess að bregðast við og fyrirbyggja skurði og aumar loppur. 

 


Það er alltaf góð hugmynd að hafa með sér skyndihjálpar sett þegar farið er í lengri göngur, ef þú ætlar að viðra hundinn í náttúrunni utanbæjar getur einnig verið gott að hafa skyndihjálpar settið meðferðis í bílnum.

Skyndihjálpar settið ætti að innihalda, umbúðar vafning (stór kostur ef hann er sjálflímandi, þeas festist við sjálfan sig þegar hann er vafinn) sótthreinsandi skol ( t.d. chlorhexidine), skæri og nóg af bómull.

Þegar hundurinn fær skurð í þófann er mikilvægast að skola sárið vel til þess að hreinsa sárið af óhreinindum og reyna að útiloka að það sitji í skurðinum aðskotahlutur sem glerbrot, sandur eða önnur óhreinindi. Þú getur notað til þess sótthreinsað saltvatn eða chlorhexidine blöndu.

Ef óhappið á sér stað á æfingu eða í göngu og þú ert ekki með neitt sótthreinsað á þér, þá getur þú notað venjulegt vatn. Mikilvægast er að skola.

 

Hvernig á að búa um slasaðar loppur ?

Þegar þú ert búin að skola og hreinsa þarftu að þurrka loppuna áður en þú vefur, því þú vilt ekki loka raka inni. Þú getur notað handklæði eða föt og ef aðstæður bjóða uppá er gott að nota hárþurrku en muna þá að stilla á kaldan blástur.

Þegar þú setur umbúðir þá þarftu fyrst að setja bómull á milli tánna á hundinum, hundar svitna í gegnum loppurnar og þessvegna er mikilvægt að þú setjir vel af bómull á milli tánna, áður en þú setur umbúðir utan um.

Ef þú ert ekki með neitt til þess að vefja utan um loppuna, geturðu t.d. notað annan sokkinn þinn til þess að redda þér.


Hvernig á að stöðva blæðingu ?

Þegar hundurinn fær djúpan skurð í þófa getur blætt mjög mikið. 

Sumum eigendum getur brugðið og aðrir geta fengið áfall þegar þeir sjá alla þessa blæðingu. En mundu að jafnvel þótt blæðingin líti dramatískt út, þá er það ekki samasem merki um að hér sé bráð hætta á ferð. Þrátt fyrir það er mikilvægt að vita hvernig á að stöðva blæðinguna, því það getur blætt mikið. 

Óháð því hversu mikil eða lítil blæðingin er þá ættir þú að reyna að setja þrýstiumbúðir á loppuna til þess að draga úr eða stöðva blæðinguna. Heilbrigður hundur sem hefur enga blóðsjúkdóma sem koma í veg fyrir eðlilega storknun blóðsins ætti að hætta að blæða mjög fljótlega, innan nokkurra mínútna. 

 Það er nokkuð einfalt að setja þrýstiumbúðir á, jafnvel þótt þú hafir ekki umbúðir meðferðis. Beri svo undir, þá þarftu að nota hugmyndaflugið. Þú setur eitthvað þétt ofan á sárið og þrýstir á, svo setur vefur þú einhverri langri ræmu yfir - hér getur þú t.d. notað sokkinn þinn. Vefðu þétt og blæðingin ætti að stöðvast innan skamms. 

Djúpir skurðir gæti þurft að sauma. Dýralæknir metur hvort það sé nauðsynlegt.  

Ef þú hefur náð að stöðva blæðingu og átt ekki heimangengt til dýralæknis strax, þá skaltu skipta um umbúðir aftur fljótlega og sjá til þess að loppan sé þurr og hrein áður en þú vefur um fyrir nóttina. Ef það er engin blæðing þegar þú skiptir um umbúðir en skurðurinn er djúpur er gott að hafa þrýstiumbúðir á þangað til þú kemst til dýralæknis daginn eftir, umbúðirnar koma í veg fyrir að hundurinn geti sleikt sárið og hjálpa til við að halda skurðinum lokuðum því hann vill frekar gliðna þegar hundurinn stígur í loppuna umbúðarlaus. 

Önnur loppuráð : 

Loppur hunda verða fyrir miklu áreiti og álagi frá hvössum brúnum, klaka, snjó, salti, hrauni, möl og heitu malbiki. 
Loppu umhirða er mikilvæg til þess að loppurnar geti aðlagað sig að því umhverfi þeim er ætlað að vera í og ættu loppur hundsins að fá umönnun allt árið um kring. Þetta hjálpar loppunum að haldast mjúkar og sterkar og hundinum líður vel. 

 



Regluleg notkun Paw Care smyrslisins kemur í veg fyrir þurrar og sprungnar loppur. Dauð húð veldur oft sprungum. Gott ráð er að pússa dauða og harða húð af loppunum reglulega til þess að halda loppunum mjúkum og góðum. Þú getur notað naglaþjöl til þessa. Paw Care hefur græðandi áhrif, en ætti ekki að nota á djúp opin sár eða skurði.

White Fish Omega-3 olían getur styrkt loppurnar innanfrá. 

Ef að hundurinn þinn á það til að fá aumar loppur eða er á leið í verkefni sem reynir á þófaþol, getur þú notað sokka sem fyrirbyggjandi vörn. 

Ef þú vilt vita meira um hundasokka þá bendum við að þessa grein: Allt um hundasokka